Þann 6. júní kl. 04:40 hittist hittist hópur manna og kvenna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öll áttum við flug til Zurich en við vorum að fara á Euromeeting RT-10 sem var haldið í bæjunum Tune og Spiez. Í hópnum voru 14 manns, 8 teiblarar og 6 eiginkonur og kærustur.
Flugið til Sviss gekk vel fyrir flesta… Hafsteinn var eitthvað slappur eða eiginlega bara fárveikur. Fékk bara að sitja nálægt klósettinu og þá gekk bara allt vel.
Þegar komið var til Zurich tók við tveggja tíma lestarferð til Thun. Fyrir okkur sem vorum að ferðast með lest í fyrsta skipti var þetta mikil upplifun og hefur heimamönnum örugglega þótt þetta fólk eitthvað undarlegt þar sem það skælbrosti allan hringinn og lá úti í glugga að skoða það sem fyrir augu brá.
Á lestarstöðinni í Thun tók á móti okkur góðvinur okkar frá Euromeeting í Keflavík, Thomas Zulauf. Þó Thomas hefði ekki hitta alla í hópnum áður þekkti hann alla með nafni. Eða allavega eins og hann hélt að það hljómaði. Thomas sá til þess að láta skutla okkur á hótelið okkar sem við yrðum á fyrstu nóttina. Delta Park hét það hótel en það var með glæsilegra móti og með stórkostlegu útsýni út á Lake Tune. Thomas, Benno Wyss, Omar Lüthi tíumenn komu þangað ásamt eiginkonum og áttu góða stund með okkur fram á kvöld.
Rétt fyrir hádegi miðvikudaginn 7. júní vorum við öll samankomin í anddyri hótelsins en við vorum að fara í preetor. Þetta hét Alpa Preetour og þær upplýsingar sem við höfðum voru að gista ætti í fjallakofa fjarri nútímaþægindum og að taka ætti með hlý föt. Í Thun var glampandi sól og 20 stiga hiti, þannig að sumir hverjir ákváðu sennilega væri þetta bara einhver della í heimamönnum sem þekktu greinilega ekki ferska suðurnesjavinda. Farið var á tveimur sendiferðabílum og heimamenn óku. Ekið var út í sveit og upp í fjöllin. Við hverja beygju og í hvert skipti sem ekið var yfir nýja hæð stóðum við flatlendingarnir á öndinni. Útsýnið var alveg hreint lygilegt. Á miðri leið inni í skógi var stoppað við göngu-hengibrú. Þarna hlakkaði í sumum, sérstaklega þar sem í hópnum voru sérstaklega lofthræddir einstaklingar. Allir gengu þó yfir og til baka, sumir stjarfari en aðrir.
Frá brúnni var enn haldið áfram og ekki stoppað fyrr en við bóndabæ sem var í 1700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi bær átti að verða svefnstaðurinn okkar. Allt í kring voru himinhá fjöll, grösugar brekkur, tré, geitur og kýr með risa bjöllur um hálsinn. Þetta var svokallaður sumarbóndabær, á vorin þegar snjóa fer að létta smala bændurnir öllum sínum búfénaði upp í fjöllin. Að vera uppi í þunna loftinu gerir þær hraustari. Vegna skorts á samgöngum er mjólkin nýtt til ostagerðar enda Sviss þekkt fyrir ostagerð.
Þarna var farið í Alpagolf. Það fór þannig fram að við þurftum að ganga lengst upp í fjall og slá kúlu niður eftir og það átti að hitta staura sem voru á leiðinni. Ekki leið á löngu áður en tíumenn fundu sig knúna til þess að fara úr að ofan og golfið leystist upp í eitthvað allt annað. Í Ölpunum vaxa brenninetlur. Það vissum við ekki. Einhverjum þótti sniðugt að renna sér niður grösuga brekku á bossanum, því hefði sennilega verið best að sleppa.
Um kvöldið var svo haldin grillveisla undir berum Alpa himni. Þeir sem ekki höfðu trú á því að það þyrfti að taka með hlý föt fóru mjög fljótlega að sjá eftir þeirri ákvörðun.
Eftir góðan nætursvefn á sameiginlegu svefnlofti þar sem annar eins hrotukór hefur örugglega aldrei hljómað, var farið að huga að því að skrölta til byggða.
Þegar komið var þangað var förinni heitið til Spiez en ekki Thun. Bruno Affentranger RT-10 Thune er hótelstjóri á glæsilegu hotel Belvadere. Þar var hann búinn að taka frá næstum allt hótelið fyrir okkur og Euromeeting. Á sama tíma voru aðrir þátttakendur einnig að tínast inn. Bretar, Finnar, Frakkar, Belgar, Austurríkismenn, Svíar og aðrir Svisslendingar.
Um kvöldið var grillað og haldið smá „get togather“ Þarna hófst teiblið fyrir alvöru og voru menn að lengst fram á nótt.
Of snemma á föstudagsmorgni var öllum hópnum smalað niður að vatninu en nú var blásið til mikillar keppni. Skipt var í nokkur lið sem áttu að keppa í ýmsum þrautum. Róa á standup paddleboard, mini golf, sand bolta og ýmsu öðru. Þetta var allt saman hin mesta skemmtun og mjög gaman að sjá samheldnina og keppnisskapið í hverju liði.
Það sem eftir lifði dagsins fór svo að mestu í að undirbúa kvöldið en þá átti að vera Nations Night. Frá okkar ástkæra og ylhýra komum við með sviðakjamma, sviðasultu, harðfisk, lakkrís, Ópal, Tópas og Brennivín.
Viðburðurinn fór fram í gömlum kastala sem ég kann því miður ekki söguna af, en það er alveg örugglega eitthvað stórmerkilegt. Allir klúbbar höfðu komið með það besta frá sínu heimalandi ásamt því að klæðast þjóðbúningum. Finnar voru td. með sinn ágæta drykk Salmiakki Koskenkorva. Svíar komu með reykt elgshjörtu, Austurríkismenn með Stroh og svo mætti lengi telja.
Þegar leið á kvöldið var farið aftur á hótelið og nú fékk restin af Evrópu loksins að kynnast alvöru íslensku bófarappi, sem og lauslega var farið yfir hugtakið „úraðofan“ Bara svona rétt til að menn væru með á hreinu hvernig menn rúlla á klakanum.
Á laugardeginum fóru allir með strætó niður í miðbæ Thun og local tíumenn fræddu okkur um sögu héraðsins og sögu Sviss. Merkilegt að sjá hvernig staðan var á miðöldum á þessu svæði, fólk bjó í köstulum, steinhúsum og fínerí. Á sama tíma og Íslendingar bjuggu nánast í holum í jörðinni. Túrinn endaði svo á bátsferð um vatnið sem bæirnir liggja við. Báturinn er frekar stór vatnastrætó sem kemur við á mögum stöðum.
Á laugardagskvöldinu var svo komið „the main event“ Galadinner á hotel Belvadere. Það var fjögurra rétta glæsilegur matseðill.
Strax á eftir aðalréttinum var komið að hverri þjóð að vera með skemmtiatriði. Það sem Svisslendingar vildu að yrði þema atriðanna var að menn áttu að reyna að fanga anda Sviss. Af nægu var að taka. Svíar tóku m.a. Eurovision lag og Austurríkismenn gerðu grín að bankaleynd. Keflvíkingar tóku hinsvegar fyrir allt það helsta sem við höfðum upplifað í landinu… eða svona einhverja útgáfu af því. Úr varð leikþáttur þar sem Bjarni Páll var sögumaður og sagði sögu á þýsk-ensk-dönsku. Aðrir léku með. Sagan gerðist í ölpunum og Heiða og afi hennar eru aðalpersónurnar ásamt óvæntu tvisti með William Tell, smjörstrokk og LSD.
Gaman að segja frá því; Að sjálfsögðu nældum við okkur í bikar. Það var nú reyndar bölvað rassgat að vinna þennan bikar. Þetta var ferðabikarinn og hann var HUGE, 15 kg og 70 cm á hæð. Gaman að ferðast með hann. Við skiljum hann sennilega eftir heima á næsta Euromeeting og vinnum hann bara aftur og aftur og aftur… Svona RT-10 style
Að þessu öllu loknu hófst enn eitt frábært teiblið. Það var mættur svissneskur DJ sem reyndi að trylla lýðinn. En það var ekki fyrr en Keflvíkingarnir fóru að segja honum fyrir verkum sem stuðið byrjaði fyrir alvöru. Kvöldið var alveg ótrúlega skemmtilegt og djammaði fólk fram á rauða nótt.
Á sunnudeginum var komið að kveðjustund fyrir flesta. Við vorum á leiðinni til Zurich til að eyða seinustu nóttinni okkar. Það var með trega sem við skildum við bæði gamla og nýja vini. Allir voru frekar mjúkir yfir þessu öllu saman.
Við tókum lestina til Zurich þar sem við ráfuðum um götur og sumir versluðu sér svissneska hnífa… ég meina „when in Swiss“… Tókum góðan rólegan kvöldverð svona rétt í lokin.
Daginn eftir var komið að heimferð. Flugum með Icelandair til Sunny Kef, stóð reyndar Reykjavík á skiltinu, hvað er málið með það? Lentum í Kef.
Þó svo menn og konur væru nú búin að drekka nægju sína í Sviss pössuðu sig allir á að taka tollinn. Þó er hugsanlegt að enginn hafi haft lyst á Ópal og Tópas. Eftir að hafa endurheimt allar sínar töskur var kvatt enn á ný og allir héldu glaðir og sáttir til sinna heima.
Undirritaður byrjaði að sækja fundi hjá tínunni í október 2016, tekinn inn í desember 2016. Áður en ég byrjaði hafði ég bara aðeins heyrt af þessum félagsskap. Tók að sjálfsögðu þátt í AGM í Keflavík í vor. Þessi ferð til Sviss var mitt fyrsta alþjóðlega teibl. Og þetta var ótrúlegt. Ótrúlegt að hitta allt þetta fólk sem ég hafði aldrei hitt áður og það var eins og við værum búin að vera vinir alla tíð. Gaman að ræða við þau um þeirra klúbba, þeirra líf og fjölskyldur. Að fara þangað opnaði augu mín fyrir svo mörgu öðru sem ég hef bara aldrei pælt í áður. Ég get ekki beðið eftir því að fara á næsta RT viðburð sem ég kemst á, hvort sem það er hér heima eða erlendis. Næsti Euromeeting RT-10 verður og Brighton Englandi og ég ætla að fara, eftir það í Finnlandi og ég þangað og næsti… Því það er svo gaman að eiga vini, sérstaklega alþjóðlega vini.
Guðmundur Ragnar Magnússon RT-10 Keflavík